Fréttir


Ákveðið að hefja kennslu kl. 8:20 næsta skólaár.

18-06-2019

Skólastjórnendur hafa tekið þá ákvörðun að kennsla muni hefjast kl. 8:20 í stað 8:00 næsta skólaár.

Stjórnendur GRV hafa skoðað þetta mál vandlega í vetur og velt upp kostum og göllum við þessa breytingu. 

Ákvörðunin var tekin í samvinnu við fræðslufulltrúa og skólaráð. Einnig var hugmyndinni velt upp á aðalfundi foreldrafélagsins sem haldinn var í vor.

Fræðsluráð tók umræðu um málið og þar kom fram að: skólastjóri fer með stjórnun skólans, veitir faglega forustu og ber ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitastjórn. Skólastjóri hefur skólaráð sem samráðsvettvang um skólahald. Umrætt mál hefur verið rætt innan þess vettvangs og aðilar sammála og sátt með breytt fyrirkomulag. Ráðið setur sig ekki upp á móti þessari ákvörðun en beinir því til skólastjóra að gæta vel að upplýsingaflæði til foreldra og að það sé gert tímanlega við slíkar breytingar. 

Sem fyrr segir er þessi ákvörðun ekki tekin í flýti og hér má sjá helstu ástæður fyrir þessari ákvörðun:

 • Algengt í öðrum skólum á landinu, fáir skólar sem byrja kl. 8:00.  
 • Teljum að fleiri komi í graut og sé þá vel nærðir fyrir skólabyrjun. 
 • Yndislestur - skólabragur þar sem nemendur mæta inn í stofur og byrja að lesa.
 • Kennarar geta verið mættir fyrr inn í stofur á morgnana, sem hefur gefið góða raun og sýnt að þá fer skólabyrjun betur af stað. 
 • Unglingar - hefur góð áhrif á þá að byrja seinna (rannsóknir, The Journal of Developmental & Behavioral Pediatrics). 
 • Getur haft góð áhrif á umferðina við skólana á morgnana, þar sem leikskólar og Víkin byrja fyrr. 
 • Bætir innra starf GRV
  • fundir (stuttir samstarfsfundir/kennarafundir að morgni)
  • samstarf (t.d. umsjónarkennara og stuðningsfulltrúa).
  • forföll (betri tími til að manna forföll )

Skólinn mun opna á svipuðum tíma og áður, opnar núna 7:40, mun opna um 7:45 og grautur frá 7:55 - 8:15. 

Skólaliðar verða til taks eins og áður og munu vakta stofur á morgnana þar til kennarar mæta í stofur.

Starfsfólk GRV vonar að forledrar taki jákvætt í þessa breytingu og gefi þessu tækifæri næsta vetur.

Eftir veturinn verður farið yfir hvernig breytingin gekk og þá er mikilvægt að koma athugasemdum á rétta staði, eða til skólastjórnenda.  

Stjórnendur GRV.