Jafnréttisáætlun er mikilvægt verkfæri sem nota á til að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnustaðnum og í skólanum. Eins og allar góðar áætlanir þurfa jafnréttisáætlanir að vera formlega samþykktar og kveða á um markmið og aðgerðir sem hafa jafnrétti kynjanna að leiðarljósi. Í jafnréttisáætlun felst jafnframt viðurkenning á því að nauðsynlegt sé að grípa til sérstakra aðgerða t að raunverulegt jafnrétti milli kynjanna náist. Samþykkt aðgerðabundin jafnréttisáætlun á grundvelli 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er ein forsenda þess að fyrirtæki eða stofnun fái jafnlaunavottun.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla ber öllum fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Skal þar sérstaklega kveðið á um markmið og gerð áætlun um hvernig starfsmönnum eru tryggð þau réttindi sem tilgreind eru í 19.–22. gr. laganna. Sem menntastofnanir ber skólum, óháð starfsmanafjölda, að uppfylla 22. og 23. gr. laganna gagnvart nemendum.

Jafnréttisáætlanir og jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu skal endurskoða á þriggja ára fresti.

Hér má finna jafnréttisáætlun Grunnskóla Vestmannaeyja sem og framkvæmdaráætlun fyrir skólaárið 2018-2019.