Hlutverk foreldra í námi og foreldrasamstarf

Segja má að hlutverk foreldra í heimavinnu barnanna sé að koma á föstum venjum og veita aðstoð með það í huga að stuðla að sjálfstæði í vinnubrögðum. Búa til “ramma” sem gerir heimanámið að hluta daglegs lífs. Þessi rammi er bæði aðstoð og það umhverfi sem valið er til heimanáms. Eitt það mikilvægasta sem foreldrar gera er að hvetja börnin til dáða og hrósa fyrir það sem vel er gert, í stað þess að leggja áherslu á það sem miður fer. Sem dæmi má nefna barn sem er að læra að skrifa, hrósið þá fyrir þá stafi sem vel eru skrifaðir en leggið minni áherslu á hina.

 

Ávallt skal stefnt að góðri samvinnu heimilis og skóla í málefnum barna, bæði símleiðis og í gegnum tölvupóst. Foreldrar/forráðamenn eru að sjálfsögðu alltaf velkomnir ef þeir vilja koma og kynna sér skólastarfið og er þeim þá bent á að hafa samband við viðkomandi kennara. Allir kennarar hafa viðtalstíma, þurfi foreldrar að ná tali af kennara hafa þeir samband við skrifstofu skólans og kennari mun svo hringja til baka þegar hann hefur lokið kennslu.