Haustið 2013 var myndaður þróunarhópur til að móta heildstæða lestrarstefnu fyrir Grunnskóla Vestmannaeyja. Hópurinn tók formlega til starfa í febrúar 2014. Drög af stefnunni voru afhent kennurum skólans til lesturs og umsagnar haustið 2014.

Um leið og unnið var að lestrarstefnunni fyrir skólann hafa kennarar verið að innleiða og vinna eftir hugmyndafræði Leið til læsis þar sem Halla Andersen og Herdís Rós Njálsdóttir hafa leitt.

Í skólanum hefur verið unnið eftir hugmyndafræði Orð af orði í öllum námsgreinum í fimm ár þar sem Ásdís Tómasdóttir hefur verið teymisstjóri.

Á síðasta skólaári var farið af stað með heimalestur í öllum árgöngum skólans og mikilvægi þess tilgreint í lestrarstefnunni. Því má segja að kennarar hafi þegar byrjað að vinna eftir stefnunni.

Lestur einangrast ekki við íslensku því það er hlutverk allra kennara að efla læsi nemenda í öllum námsgreinum. Það er markmið okkar að nemendur verði læsir í víðum skilningi og læri að njóta lesturs bæði til gagns og gamans.

Í Grunnskóla Vestmannaeyja verður unnið samkvæmt lestrarstefnu skólans frá haustinu 2015.


Þróunarhópurinn var skipaður eftirfarandi kennurum: 

Halla Andersen kennari og fagstjóri í íslensku á yngra stigi, Kolbrún Matthíasdóttir kennari, Herdís Rós Njálsdóttir kennari, Helga Sigrún Þórsdóttir sérkennari, Ólöf A. Elíasdóttir deildarstjóri yngra stigs

Svanhvít Friðþjófsdóttir kennari og fagstjóri í íslensku á  mið- og unglingastigi  og Ásdís Tómasdóttir íslenskukennari á unglingastigi störfuðu einnig með hópnum.

 

Læsisstefna GRV